Ég man hvað Bjarmalandið var alltaf langt. Óendanlegt. Frá skólanum var Haðalandið búið. Grundarlandið búið. Farið að kvarnast vel úr barnaskaranum sem gekk heim á leið og ég þurfti að ganga allt Bjarmalandið á enda. Stundum var ég á hjóli og þá þurfti ég að passa mig mjög vel þegar ég fór göngustíginn milli Brautarlands og Bjarmalands því hellurnar höfðu gliðnað á mörgum stöðum og sérstaklega á einum stað, akkúrat í miðjunni, gat maður fest dekkið á hjólinu ofan í og dottið ef maður fór ekki varlega.
Einu sinni festi ég skóreimarnar í pedalanum. Þær höfðu
vafist hring eftir hring, alla leiðina sem var svo löng. Allt í einu þrengdi
skóinn svo að. Ég gat ekki gert neitt. Ég var pikkföst. Ég var rétt hjá heima
en ég gat ekkert gert. Þennan daginn fór ég meðfram götunni í Bjarmalandinu,
ekki efri göngustíginn með gleiðu hellunum. Akkúrat þennan dag var vinnumaður
þarna rétt hjá sem gat lyft mér yfir hjólið. Það var vont og ég var hrædd og ég
skammaðist mín líka. En hann losaði mig úr prísundinni. Ég hugsa oft hvað hefði
annars gerst. Í vetur fór ég á bíl heim til mömmu og pabba og það var mikill
krapi í botnlanganum, svo mikill að ég var ekki viss um að ég myndi komast
þaðan. Ég hugsaði með mér að ég gæti setið í bílnum í tvo tíma áður en nokkur einasta
manneskja væri sjáanleg. Allt öðruvísi en í nýju götunni minni þar sem er
alltaf fólk að ganga. Eins gott að vinnumaðurinn var þarna þennan dag.
Ég man að labba í strætó. Svo langt. Eiginlega eru
minningarnar flestar um hvað það var rosalega langt í allt. Hvort átti ég að
hjóla upp alla brekkuna í Grímsbæ eða fara auðveldari leiðina í Snælandsvideo til
þess að kaupa nammi eða leigja spólu? Það var auðveldara að fara í Kópavoginn,
en þar þekkti ég engan. Myndi ekki rekast á neinn. En það var erfitt að hjóla
upp alla brekkuna, en auðvelt að fara hratt niður. Einhvernveginn finnst mér eins
og ég hafi oftar valið Snælandið. Bjarmalandið var samt ekki jafn langt í burtu
og Markarvegurinn, en þau höfðu einhvernveginn annan heim fyrir sig svo það var
smá öðruvísi. Það var hverfi í hverfinu.
Ég fór í klippingu í Grímsbæ. Ekki til rakarans heldur uppi.
Ég fékk klippikort hjá þeim þar sem 10. hver klipping var frí og einu sinni
sagði konan við mig að ég hefði nú alveg komið áður til þeirra, hvort ég ætti
ekki klippikort heima. Hvað með það þótt ég hafi gleymt því einu sinni heima? Af
hverju þurfti hún að tala um það?
Ég átti ljóta, græna flíshúfu. Ég var einu sinni með hana á
höfðinu þegar ég kom í klippingu. Þær sögðu að ég væri voðalega úfin. Mér fannst
ég alltaf ljót með hana og hef ekki notað húfur síðan. Eða. Ég hefði ekki notað
húfu síðan ég týndi flottustu húfunni í 8. bekk. Hún var líka svona blágræn með
glimmeri í. Ég týndi henni á handboltalandsleik í Laugardalshöll. Ég held ég
hafi a.m.k. farið tvisvar að leita að henni en fann hana aldrei og síðan þá hef
ég ekki notað húfu. Ég hef ekki týnt mörgum hlutum um ævina. Einu sinni týndi ég eyrnalokk á djamminu. Hugsa enn reglulega um hann. Og húfuna góðu.
|